
Ein af ástæðunum afhverju ég keypti mér Air Fryer, var til þess að “djúpsteikja” án þess að nota líter af olíu. Ég er eiginlega alveg viss um að allt sem er djúpsteikt er gott, en kannski ekki það besta fyrir heilsuna. Ég ætla að deila með ykkur uppskrift af einum af mínum uppáhalds réttum til þess að búa til í Domo Air Fryernum mínum en hann er innblásinn af gamla Louisiana kjúklingaréttnum á Vegamótum sem svo margir sakna. Ég hef prófað mig áfram með þennan rétt í þó nokkurn tíma og er þetta að mínu mati besta útgáfan – ekki skemmir fyrir að hún er “hollari” þar sem við sleppum djúpsteikingunni og notum Air Fryer í staðinn.
Ég var ein af þeim sem skipti allaf gráðostasósunni úr fyrir hvítlaukssósu og frönskunum út fyrir sætar franskar. Það er eitthvað við hvítlaukinn í sósunni sem passar svo fullkomið við BBQ sósuna. Þá eru örugglega margir sem segja það sama með gráðostinn en ég hef bara ennþá ekki náð að sætta mig við bragðið á honum, kannski kemur það einn daginn þegar ég verð meira fullroðin.
Ég bý mjög sjaldan til franskar sjálf frá grunni og mun sjaldnar eftir að ég eignaðist Air Fryerinn. Þær verða svo krispí og góðar, allt annað en að elda í ofni! Það þægilega við að elda franskar í airfryer er að þú getur bara hellt úr pokanum og þarft ekki að pæla í því ef þær eru ofaná hvor annari. Muna bara að hrista aðeins í körfunni þegar helmingurinn af tímanum er liðinn svo að þær ná að brúnast á öllum hliðum.
Njótið x








Klístraðir BBQ blómkálsvængir – vegan
Búnaður
- Domo Air Fryer
Hráefni
Blómkál
- 1 miðlungs blómkál
- 2,5 dl hveiti
- 2,5 dl plöntumjólk ég notaði haframjólk
- 1 tsk salt
- 1 tsk laukduft
- 1 tsk hvítlauksduft
- 5 dl panko brauðrasp gæti þurft meira/minna
- 500 ml sweet BBQ sósa
Sætar franskar
- 1 poki frosnar sætar franskar
- salt eftir smekk
Hvítlaukssósa
- 2 dl vegan majónes
- 3 pressaðir hvítlauksgeirar
- 2 msk sítrónusafi
- 2 tsk salt
- 1 tsk pipar
Aðferð
Blómkál
- Hitið air fryerinn við 200 gráður
- Skerið blómkálið niður í munnbita
- Blandið saman hveiti, plöntumjólk, salti, laukdufti og hvítlauksdufti í skál og pískrið saman. Þetta á að vera á þykkt við pönnukökudeig.
- Í aðra skál, setjið panko brauðrasp
- Setjið blómkálið ofan í deigið og veltið svo upp úr brauðraspinum
- Raðið blómkálinu í air fryer körfuna, ekki of marga í einu – ég byrjaði á að air frya helminginn og svo restina
- Hitið í 10 mínútur – opnið air fryerinn eftir 5 mínútur og hristið aðeins körfuna svo að bitarnir snúist við og brúnist á öllum hliðum
- Setjið í skál og veltið upp úr sætri BBQ sósu
Sætar franskar
- Hitið air fryerinn við 200 gráður
- Hellið frönskunum í körfuna, mega alveg fara ofaná hvor aðra
- Hitið í 10 mínútur eða þar til endarnir eru farnir að dekkjast – opnið air fryerinn eftir 5 mínútur og hristið aðeins körfuna svo að franskarnar snúist við og brúnist á báðum hliðum
- Saltið eftir smekk þegar þær eru tilbúnar
Hvítlaukssósa
- Blandið öllum hráefnunum saman í skál og hrærið
Ráð
Smelltu hér til að skoða Domo Air Fryer’inn betur – hann fær öll mín meðmæli!
ef þú prófar þessa uppskrift máttu endilega deila því með mér með því að senda mér mynd á instagram eða jafnvel tagga mig í story @tinnath